VERÖLD Í VANDA OG ÆSKILEG VIÐBRÖGÐ:  Fræðsla og  samræður um umhverfismál og lífsviðhorf

Fundirnir munu fara fram í Digraneskirkju miðvikudagana 25. maí, 1. júní og  8. júní, frá kl. 09:30 til 11:30. Miðað er við það að hægt verði að fylgjast með fundunum á netinu.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðvísindamaður og rithöfundur, mun í máli og myndum fræða og fjalla um ,,umhverfismál í víðum skilningi’’ og einkum stöðu Íslands og norðurslóða og bjóða til samræðna um lífsgildi og viðbrögð í því samhengi.

Á hverri fræðslustund mun hann í tveimur fyrirlestrum fjalla um tiltekna efnisflokka.  Fræðsla  2 X 20-30 mín.  Umræður í 15-20 mín. á  milli fræðslustunda og einnig eftir þá síðari.

Miðvikudaginn 25. maí:

  1. Hlýnun jarðar, afleiðingar hennar og viðbrögðin – Samræður
  1. Sóun, endurvinnsla og gjörnýting hráefna – lykill að framtíðinni – Samræður

Miðvikudaginn 1. júní:

  1. Ferðaþjónustan, þjóðgarðar og náttúruvernd – Samræður
  1. Virkjanir, iðnaður og orkuflutningsnetið – Samræður

Miðvikudaginn 8. júní:

  1. Hefðbundnu atvinnuvegirnir og samgöngur – Samræður
  1. Opnun norðurslóða og olíuleit við Ísland – Samræður

Til glöggvunar er verðandi þátttakendum bent á bók Ara Trausta – Veröld í vanda –  sem kemur út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi síðla í maí – og netsíður á borð við umhverfisfrettir.is, natturan.is, natturuvernd.is og environice.is

Bókin verður væntanlega til sölu á afsláttarverði á fundunum og þess er vænst að Vísindasjóður styrki presta við bókarkaupin.

Ari Trausti telur að prestar og kirkjufólk gætu haft mikið að segja um það í hvaða farveg umhverfisumræðan fari í samfélaginu og hvernig brugðist verði við hættumerkjum en verði að fá sem bestar upplýsingar um ýmis atriði viðkomandi umhverfisaðstæðum og þekkja vel til þeirra, til að geta haft marktæk og farsæl áhrif á umræðuna og stýrt henni til heilla.

Hér er um að ræða útrétta hönd frá íslensku vísindasamfélagi til kristni og kirkju, sem gæti styrkt samstarf og samstöðu til lífsheilla á komandi tíð. Því er treyst að verði tekið vel á móti henni og brugðist vel við þessu ágæta tilboði Ara Trausta verði það til farsældar þjóð og kirkju á komandi tíð.

Áhugasöm eru beðin að skrá sig hér.

10. maí 2016 - 13:27

Sr. Gunnar Sigurjónsson