Á nýársdag 1. janúar 2022 stóð ég á Times Square í New York borg og virti mannlífið fyrir mér. Múgur og margmenni gekk um torgið, áramótakúlan fallin, Brad Pitt drakk dreyminn kaffi á flennistóru auglýsingaskilti, einu af mörgum. Þarna var fólk að láta taka mynd af sér  með Grinch, Mínu mús, og fleiri litsterkum ævintýrapersónum, löng röð lá að tjaldi þar sem verið var að taka hraðpróf vegna Covid. Lögreglumenn merktir NYPD supu ábúðarfullir á Starbucks kaffinu sínu og skammt frá þeim lá ungur heimilislaus maður undir feldi við stórverslun Gap. Hjá honum lá spjald sem á stóð „Anything helps“ og plastmál. Ung stúlka gekk að og kastaði klinki í það og hélt áfram sinn veg.

Á sama tíma varð mér litið á skilaboð á einu skiltanna hvar vitnað var í sjálfan mannréttindafrömuðinn Martin Luther King Jr. Tilvitnunin var þessi: „Love is the greatest force in the universe.“ Lausleg þýðing: „Kærleikurinn er sterkasta aflið sem til er í alheiminum.“ Einhver kynni að segja að tilvitnun þessi gæti svo sem verið frá hverjum sem er og engin ný sannindi eða speki þar á ferð. Margkveðin vísa. Það má vafalaust til sanns vegar færa, en engu að síður voru þessi orð eignuð King Jr. og þeim þannig gefið dýpra og aukið vægi. Hvers vegna það? Jú, þau sem þekkja til lífshlaups, lífsreynslu, og drauma King Jr. vita að þar var kærleikurinn ekki bara eftirsóknarvert afl, heldur hið sterkasta í alheimi þrátt fyrir alla fordómana og allt hatrið. Ævi hans sýndi að þegar talað er máli kærleikans afhjúpast illskan og verður við það aldrei söm. Leiðin að kærleikanum getur reynst grýtt og torsótt í fjölbreyttu samfélagi manna en reyndin ávallt sú að í þyngsta andstreymi gefur kærleikurinn byr í seglin og við sjáum það hvað gleggst þegar upp úr öldudal er komið og litið er yfir sviðið. Kannski verður það helsti lærdómurinn sem við tökum með okkur frá þessum fordæmalausu tímum farsóttar?

Kærleikurinn er sterkasta aflið og hann er líknandi afl. Stundum fæ ég á tilfinninguna þegar um kærleikann er fjallað að honum sé kastað sisona fram í yfirborðskenndu hjali til að sefa og hugga og róa og jafnvel til að þóknast og láta þar af leiðandi eitt og annað yfir sig ganga. Mundu bara eftir kærleikanum og þá verður allt gott. Munið að vera góð við hvert annað. Vissulega gott að muna það því það getur hæglega gleymst. King Jr. kynntist því áþreifanlega á lífsleið sinni. En það er jafnframt mikilvægt að muna það að kærleikurinn er svo miklu meira en yfirborðskennt hjal um það að við eigum bara að vera góð og passa upp á að rugga ekki neinum bát. Það er sem sagt ekki samasemmerki á milli kærleika og meðvirkni. Þú getur sýnt náunga þínum einstakan kærleika með því að koma hreint fram, segja sannleikann, afhjúpa t.a.m. fordóma og fávisku þeirra, afhjúpa slæmt hegðunarmynstur sem náungi okkar hefur tileinkað sér og hefur staðið samskiptahæfni hans og eðlilegum samskiptum fyrir þrifum.

Kærleikurinn getur jafnvel reynst það afl sem fær hinn fordómafulla til að dæma manneskju eftir því hver hún raunverulega er, en ekki eftir kyni, kynhneigð, kynþætti, stétt, eða stöðu eða öðru því sem mannkyn hefur nýtt sér til að draga fólk í dilka. Kærleikurinn er það afl sem getur þess vegna opnað augu sjálfdýrkandans, sem þráir hvað mest að hafa vald yfir öðru fólki og stjórn, grípur þess vegna til ofbeldis til þess að svo megi verða. Kærleikurinn getur fengið hann til að líta inn á við, skoða sjálfan sig, og láta af ósannindum, sundrung, illu umtali, og hverskonar áníðslu sem eru helstu vopn hans í þeirri baráttu að ná fram markmiðum sínum. Þannig getur kærleikurinn virkað sem líknandi og lífgefandi afl sem hreinsar andrúmsloft um leið og hann afhjúpar leyndardóma mannlegrar hegðunar og samskipta. Lífssaga hverrar manneskju er nefnilega að stórum hluta saga samskipta og farsæld á því sviðinu eykur þar með líkur á minni streitu, bættri heilsu, betra lífi. Eftir að hafa staðið á mannlífstorgi margvíslegra lögmála og sömuleiðis fagnaðarerinda um kærleikann lá leið mín í heimahús vinafólks á Manhattan þar sem nýfætt barn þess þáði skírn. Fagurt tilefni á fallegum degi við upphaf nýs árs. Ungur sveinn hélt af stað út á kærleikans braut með bænir í farteskinu, bænir sem fela í sér lykla að því hvernig þú fetar þá braut; elska, traust, fyrirgefning, sannleikur, ljós, allt það sem gerir kærleikann að hinu sterkasta afli í þessum alheimi okkar og sem gerir lífið þess virði að lifa því og eflir tilgang þess og merkingu.

sr. Bolli Pétur Bollason