Birnir Jón Sigurðsson les úr nýrri þýðingu Biblíunnar

Þá er Biblíumaraþoni Meme senior lokið. Lesnar voru 445 blaðsíður í nýrri þýðingu Biblíunnar og stóð lesturinn yfir í 24 klst. 27 unglingar tóku þátt í verkefninu og var þeim skipt í 4 hópa sem las í klukkutíma í einu hver. Fyrir maraþonið voru krakkarnir búnir að safna áheitum og söfnuðust alls um 350.000 kr sem renna í ferðasjóð en áætlað er að fara á Evrópumót KFUM í Prag á næsta ári.

Okkur leiðtogunum fannst þetta rosalega gaman en það helgast nr 1, 2 og 3 af því hvað við erum með frábæra krakka. Eins og gefur að skilja er það mikið álag að taka þátt í svona verkefni en unglingarnir stóðu sig eins og hetjur.

Það var líka gaman að sjá að foreldrar og ættingar voru duglegir að kíkja í kirkjuna og fylgjast með, fyrir utan alla þá sem fylgdust með í beinni útsendingu á netinu. Ein mamman kom meira að segja með fullan poka af nýbökuðum kleinum til þess að gleðja svanga lesara. Takk fyrir það.

Leiðtogar og unglingar í Meme senior vilja þakka kærlega öllum þeim sem styrktu okkur eða hjálpuðu á einn eða annan hátt. Þar ber að nefna Hróa Hött sem gaf okkur að borða á föstudaginn, Reyni Bakara sem gaf okkur morgunmat á laugardag, Árna Rúnar Inaba og Jóhannes Reykdal sem gerðu okkur kleyft að senda út á netinu, Emil Blöndal sem lánaði okkur tölvu til útsendingar, starfsfólk Digraneskirkju sem sýndi okkur einstaka þolinmæði og tilllitssemi, foreldra og fjölskyldur krakkanna í Meme sem lánuðu okkur þau í 24 klst, allir þeir sem létu fé af hendi rakna til unglinganna og hvöttu þau þannig til dáða og styrktu til utanlandsferðar og síðast en ekki síst alla frábæru unglingana sem stóðu vaktina í 24 klst og lásu.

Myndir úr maraþoninu eru komnar á myndasíðuna á jarmanetinu.

4. nóvember 2007 - 12:49

Guðmundur Karl Einarsson