Annar í hvítasunnu

Mótorhjólamessa í Digraneskirkju kl. 20

Mótorhjólamessan er árlegur viðburður þar sem hinir ýmsu mótorhjólaklúbbar ríða fákum sínum í fylkingum til Digraneskirkju.

Sjaldan koma svo mörg vélhjóla saman á einum stað svo almenningi gefst tækifæri á því að skoða fákana og spjalla við ökumenn þeirra.

Messan er ALVÖRU messa, með prédikun og altarisgöngu, svo það er ekkert slegið af í helgihaldinu, þó svo umbúnaðurinn sé sveipaður léttleika og prestarnir (sem verða að vera mótorhjólafólk) eru búnir sama klæðnaði og viðbúið er af vélhjólafólki (hefðbundnum öryggisbúnaði vélhjólamanna). Leður og Goretex er því „viðeigandi“ klæðnaður.

Það er stórkostlegt að sjá svo fjölbreytilegan söfnuð koma saman til helgihalds og ekki spillir nú fyrir að þetta minnir líka á það að við erum líka til í samfélaginu og umferðinni.

Mótorhjólamessan tekur mið af ýmsum hefðum sem skapast hafa í „mótorhjólaheiminum“, bæði hvað varðar tónlist og annað. Hún er því nokkuð „hrá“ og gæti farið fyrir brjóstið á þeim sem leitast eftir hefðbundnara helgihaldi.

Mótorhjólamessan hófst í Digraneskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfákum. Mótorhjólamessunni hefur aukist fylgi milli ára. Arið 2007 komu 240 manns á 170 hjólum. Arið 2008 yfirfylltist kirkjan (sem tekur 320 manns) með 380 riddurum götunnar á 230 fákum. Ári síðar (2009) komu 402 mótorhjólamenn í messu þannig að þetta stefnir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem annars hæfir fyrir venjulegar messur.

Mótorhjólaklúbbarnir skipta með sér að steikja vöfflur fyrir Hjálparstarf kirkjunnar sem seldar eru meðan tónleikarnir (kl. 19) og messan (kl.20) standa yfir. Postularnir ætla að steikja vöfflurnar 2020, Fenris árið 2021 og BACA árið 2022.

Auk þess er seldur, aðeins þennan eina dag (mánudaginn, annan dag hvítasunnu) hamborgari á Grillhúsinu sem kallaður er „Kraftaklerkurinn“. Fullt andvirði hans rennur á Grensásdeildina sem er endurhæfingarstöð sem því miður mörg okkar höfum þurft að nota. Sniglar jafna svo framlagið þannig að það tvöfaldast.

Þemalag mótorhjólamanna