Faðir vor

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.

Trúarjátningin

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.

Amen.

Vertu, Guð faðir

(Passíusálmur 44.19)

Vertu, Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.

 

Jóhannesarguðspjall 8.12

Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“