Hjallasókn

Reykjanesbraut að norðvestan frá mörkum Kópavogs og Garðabæjar, norðaustur Reykjanesbraut að mörkum Kópavogs og Reykjavíkur norð norðvestan Seljahverfis, þaðan eftir mörkum Kópavogs og Reykjavíkur til norðausturs og mörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðausturs og suðvesturs.

Myndun nýrrar sóknar

Hjallasókn var mynduð með skiptingu Digranessóknar. Stofndagur var 25. maí 1987 en þann dag var stofnfundur Hjallasóknar haldinn í Digranesskóla í framhaldi af því að Dóms- og kirkjumálaráðuneytið birti auglýsingu um stofnun safnaðarins 19. maí 1987.

Fyrsta sóknarnefndin var þannig skipuð: Formaður: Hilmar Björgvinsson; varaformaður: Arnór Pálsson; gjaldkeri: Jónína Júlíusdóttir; ritari: Snorri Halldórsson; meðstjórnendur: Guðmundur Þorkelsson, Gunnar S. Þorleifsson, Jóhanna Thorsteinsson, Ragnar Ásmundsson, Stefán B. Sigurðsson; varamenn: Anna Gunnarsdóttir, Anna Björg Thorsteinsson, Árni Guðjónsson, Bragi Lárusson, Ingunn Björnsdóttir, Ingjaldur Ísaksson, Jóhanna Björgvinsdóttir, Ólöf Davíðsdóttir, Sigursteinn Sævar Einarsson.

Fyrstu verkefni sóknarnefndarinnar voru þau að kjósa nýjan prest og var sr. Kristján Einar Þorvarðarson valinn. Safnaðarstarf hófst í Digranesskóla en messuheimili safnaðarins var vígt í skólanum hinn 10. janúar 1988.

Byggingarsaga

Sóknarnefndin skipaði fimm manna byggingarnefnd í ársbyrjun 1988 sem hún fól að annast undirbúning og umsjón framkvæmda við Hjallakirkju. Byggingarnefnd skipuðu Karl M. Kristjánsson, formaður, Bragi Lárusson, ritari, Jónína Júlíusdóttir, gjaldkeri sóknarnefndar, Gunnar Þorleifsson og Steingrímur Hauksson. Með byggingarnefndinni starfaði sóknarprestur, Kristján Einar Þorvarðarson.

Byggingarnefndin lagði mikla vinnu í undirbúning. Hróbjartur Hróbjartsson, arkitekt Vinnustofu arkitekta hf. var ráðinn til að teikna kirkjuna. Aðrir hönnuðir eru Verkfræðistofa Guðmundar Magnússonar (burðarþol og lagnir), Tómas Kaaber (rafhönnun), Verkfræðistofan lagnatækni (loftræstikerfi) og Stefán Einarsson (hljómburður). Að lokinni ítarlegri kynningu á tillögunum meðal safnaðarfólks var samþykkt á aðalsafnaðarfundi í maí 1991 að hefja byggingu kirkjunnar. Þá hafði bæjarstjórn afhent söfnuðinum lóðina við Álfaheiði 17 en hún hafði verið afmörkuð sem kirkjulóð þegar hverfið var skipulagt.

Á Hvítasunnudag, þann 19. maí 1991, helgaði herra Ólafur Skúlason, þáverandi biskup Íslands, lóðina og dr. theol. Sigurbjörn Einarsson, biskup, tók fyrstu skóflustunguna. Þá hafði verið samið við verktakafyrirtækið Gunnar & Guðmundur sf. um framkvæmdir við fyrsta áfanga verksins sem var gröftur og fylling í lóð. Annar áfangi var uppsteypa sökkla. Það verk annaðist fyrirtækið Einar Trausti og Gunnar og lauk því verki í október 1991. Þriðji og síðasti áfangi framkvæmdarinnar sem var uppsteypa hússins og fullnaðarfrágangur að utan, ásamt múrhúðun burðarveggja og gólfa að innan og einangrun þaka, hófst í apríl 1992. Byrgi hf. lauk verkinu að mestu í byrjun árs 1993. Í báðum síðasttöldu verkáföngunum er steypan undanskilin en hagstæðir samningar náðust við Steypustöðina hf. um kaup á steypu.

Samið var við Byrgi hf. um framkvæmdir við mestan hluta innanhússfrágangs sem er frágangur anddyris, kirkjuskips og safnaðarsalar ásamt snyrtingum, skrifstofu og fundaraðstöðu í tengslum við anddyri. Pípulagnir annaðist Guðbjörn Ævarsson. Rafþjónustan sá um raflagnir. Lampar voru keyptir af S. Guðjónssyni hf.

Byggingarnefnd samþykkti að nota íslensk efni og framleiðslu svo sem kostur væri. Þetta á við um mikilvæaga þætti, s.s. þakefni (Garða Héðinn), múrkerfi utanhúss (Ímúr), einangrun (Steinull hf.), ofna (Ofnasmiðja Suðurlands) ofl. Þá má geta þess að stólar í kirkjuna eru framleiddir af GKS Bíró með Gefjunaráklæði og S. Helgason smíðaði altari, skírnarfont og prédikunarstól úr stuðlabergi og grágrýti. Björgvin Hilmarsson, vélsmiður, smíðaði kertastjaka á altari og málmhluti á altari, prédikunarstól og skírnarfonti.

Byggingarnefndin ákvað strax í upphafi að stilla stærð kirkjunnar og efnisvali í hóf og haga framkvæmdaáföngum þannig að taka mætti kirkjuna sem allra fyrst í notkun eftir að framkvæmdir hæfust. Þá var lögð áhersla á að ljúka allri hönnun áður en framkvæmdir hæfust og gerð nákvæmdra kostnaðaráætlana. Vegna hins vandaða undirbúnings stóðust áætlanir um framkvæmdahraða og kostnað.

Vígsludagur

Kirkjan var vígð á Páskadag, 11. apríl 1993 kl. 16. Biskup Íslands, hr. Ólafur Skúlason, vígði kirkjuna og sóknarprestur, sr. Kristján Einar Þorvarðarson þjónaði fyrir altari. Yngri og eldri barnakór Hjallaskóla söng á undan athöfn undir stjórn Guðrúnar Magnúsdóttur. Kór Hjallakirkju flutti Þýska messu eftir Franz Schubert, einsöngvari með kórnum var Sigríður Gröndal. Gunnar Kvaran lék á selló, Guðrún Birgisdóttir og Martial Nardeu á flautur. Organisti og söngstjóri var Oddný J. Þorsteinsdóttir.

Áframhaldandi framkvæmdir

Haustið 1994 hófust framkvæmdir á lóð kirkjunnar og stóðu þær yfir fram að næsta sumri. Bílastæði voru malbikuð, kantsteinn og tröppur lagðar og fyrir framan inngang var hellulagt. Lóðin var prýdd gróðri um sumarið 1995 og stéttar voru lagðar. Einar Þorgeirsson, garðyrkjumaður í Birkihlíð, og starfsmenn hans, áttu heiðurinn að þessari kærkomnu fegrun kirkjulóðarinnar.
Þann 28. janúar 1996 var neðri hæð kirkjunnar formlega tekin í notkun og aðstaða fyrir starfsfólk því fullfrágengin. Dómprófastur, sr. Guðmundur Þorsteinsson, helgaði húsnæðið og bað öllu starfi sem þar færi fram Guðs blessunar.

25. febrúar 2001 var nýtt orgel vígt og tekið í notkun í kirkjunni. Orgelið smíðaði Björgvin Tómasson. Hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, vígði orgelið og prédikaði við vígsluguðsþjónustuna. Um sumarið þetta sama ár var lokið við frágang gólfefna á efri hæð. Varanlegt gólfefni var lagt á kirkjusal og anddyri kirkjunnar, og parket í efri safnaðarsal. Þá var kirkjan máluð að innan að mestu.

Sóknarmarkamál

Á aðalsafnaðarfundi Digranessóknar þann 11. maí 1997 og framhaldsaðalsafnaðarfundi Hjallasóknar þann sama dag var samþykkt tillaga um að veita sóknarnefndum og sóknarprestum þessara sókna fullt umboð til að leita samkomulags um breytingu á mörkum milli sóknanna samkvæmt þeirri megin hugmynd að makaskipti yrðu á Smárahverfi og þeim hluta Snælandsskólahverfis sem þá var í Digranessókn. Sú tillaga var samþykkt þann 8. september sama ár og staðfest á Safnaðarráðsfundi í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Aðal hugsunin að baki þessara makaskipta var að sameina skólahverfi Snælandsskóla og jafnframt færa Smárahverfið undir Digranessókn vegna nálægðar við kirkjuna.

Þann 1. janúar 2002 var ný sókn stofnuð í Linda-, Sala- og Vatnsendahverfi í Kópavogi. Þau hverfi höfðu fram að þeim tíma (frá árinu 1987) tilheyrt Hjallasókn. Sóknin hlaut heitið Lindasókn. Stofnfundur Lindasóknar var haldinn þann 13. febrúar og var þá kosið í fyrstu sóknarnefndina. Nefndin valdi sóknarprest þá um vorið og varð sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fyrir valinu. Hann hóf störf hjá söfnuðinum þann 1. júlí 2002.

Munir kirkjunnar

Af munum kirkjunnar má nefna altarisbrík sem gefin var af börnum sr. Gunnars Árnasonar, fyrrum sóknarprests í Kópavogskirkju. Á altari kirkjunnar eru tveir koparstjakar sem voru færðir kirkjunni að gjöf. Þá var kirkjunni gefið lespúlt er stendur inni í kirkjuskipi, minningargjöf til minningar um Pál Helgason. Sem áður sagði var nýtt orgel tekið í notkun og vígt í febrúar 2001, orgelið smíðaði Björgvin Tómasson. Fjölskylda sr. Kristjáns Einars Þorvarðarsonar gaf kirkjunni ljósastjaka sem vígður var á Allra heilagra messu 2003. Stjakann gerði Gunnsteinn Gíslason, myndlistamaður. Gunnsteinn gerði einnig stjaka undir páskakerti sem vígður var á Páskadag 2005.

Prestar kirkjunnar frá upphafi:

  • Sr. Kristján Einar Þorvarðarson, sóknarprestur 1987-1999
  • Sr. Bryndís Malla Elídóttir, prestur 1995-1996
  • Sr. Íris Kristjánsdóttir, prestur 1996-1999, settur sóknarprestur 1999-2000, sóknarprestur 2000-2012
  • Sr. Magnús Guðjónsson, settur sóknarprestur 1998-1999
  • Sr. Hjörtur Hjartarson, prestur 1999-2000
  • Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, prestur 2000-2002
  • Sr. Sigfús Kristjánsson, prestur 2002-2012, sóknarprestur 2012-2017
  • Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur 2012 -2016
  • Sr. Karen Lind Ólafsdóttir, prestur 2017-
  • Sr. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur 2018-

Þann 1. desember 2010 tilheyrðu um 6200 manns Hjallasöfnuði, af þeim eru u.þ.b. 4700 innan Þjóðkirkjunnar.