Hjónavígsla

Hjónavígsla eða brúðkaup er falleg athöfn. Þá biðja brúðhjón kærleiksríkan Guð að blessa hjúskap sinn og fjölskylda og vinir samgleðjast. Brúðkaup fara oft fram í kirkju en geta einnig farið fram í heimahúsi eða utanhúss. Í það minnsta skulu vera viðstaddir tveir vottar, eða svaramenn. 

Hér má lesa meira um hjónavígsluna á heimasíðu þjóðkirkjunnar.

Athöfnin í kirkjunni

Dæmi um brúðkaupsathöfn:
  1. Forspil
  2. Bæn og ávarp
  3. Sálmur
  4. Ritningarlestur
  5. Sálmur fyrir hjónavígslu
  6. Hjónavígslan
  7. Sálmur eða tónlist eftir hjónavígslu
  8. Eftirspil

Tónlist

Í sálmabók Þjóðkirkjunnar má finna sálma sem hæfa tilefninu og má þar nefna sálma 365, 366, 368 (Ást – Sólin brennir nóttina) og 370.
Val á tónlist fer annars fram í spjalli við prest fyrir athöfnina enda hægt að velja ýmis lög og sálma.

Val á ritningartexta við hjónavígslu

Hér er einungis birt tvö dæmi en mun fleiri koma til greina sem prestur mun benda á:

Fyrra Korintubréf 13. kafli – Kærleikurinn mestur

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Ljóðaljóðin 8. 6-7

Settu mig sem innsigli á hjarta þitt, eins og innsigli á arm þinn, því að ástin er sterk eins og dauðinn hún er brennandi bál, skíðlogandi eldur. Vatnsflaumur fær ekki slökkt ástina, stórfljót ekki drekkt henni.

Dagsetning

Skynsamlegt er að hafa sem fyrst samband við kirkjuna og prestinn þegar brúðhjón hafa valið daginn sinn.

Könnunarvottorð hjá sýslumanni

Öll sem hyggjast ganga í hjónaband þurfa að undirgangast könnun hjónavígsluskilyrða hjá sýslumanni en það er forsenda þess að hjónavígsla megi fara fram (texti sóttur af vef sýslumanns). Sýslumaður gengur frá könnunarvottorði (könnun á hjónavígsluskilyrðum). Hægt er að ganga frá því rafrænt og nauðsynlegt er að afhenda presti fyrir athöfnina. Könnunarvottorð gildir í 30 daga!