Skírn

Skírn er falleg athöfn þar sem fjölskylda og vinir fagna og samgleðjast. Skírnin er inntaka í kirkju Krists og við biðjum góðan Guð að blessa barnið og fjölskyldu þess. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna og eru minnt á að ala barnið upp í kristinni trú með boðskap Jesú Krists að leiðarljósi. Um leið og barnið er skírt, er nafn þess nefnt og helgað með orði Guðs og bæninni.

Hægt er að skíra við messu en þá er skírt í upphafi messunnar (eftir upphafsbænina). Venjulega er sunginn skírnarsálmur. Einnig er hægt að skíra við sérathöfn með fjölskyldu og vinum. Auk þess er hægt að hafa skírn í heimahúsi eða öðru húsnæði eins og samkomusölum.

Ef þess er kostur, ættu báðir foreldrar svo og guðfeðgin að fylgja barninu að skírnarsánum. Höfuð skírnarbarns hvílir á vinstri handlegg þess sem heldur á því. Guðfeðgin eru að jafnaði tvö til þrjú. Þau eru valin úr hópi vina og vandamanna. 

Kirkjan færir barninu kerti að gjöf sem er tendrað við skírn og afhent í lok athafnar. Skírnarljósið er til merkis um hið kristna líf sem barnið hefur fæðst til við skírnarlaugina. Það vísar til orða Jesú Krists: „Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“  Söfnuður stendur undir trúarjátningu og skírninni sjálfri.

 

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf.

Amen.

Jesús sagði: “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.
Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum,
skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda
og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.”
(Matt. 28.18-20)

Heyrum ennfremur þessa frásögn:
Menn færðu börn til Jesú, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum og hann mælti við þá: “Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.”
Og hann tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
(Mark. 10.13-16)

Skírn í messu á sunnudegi er án endurgjalds.

Skírn á öðrum umsömdum tíma:
Sjá gjaldskrá.