Trúarlegt ferðalag í helgihaldi Digraneskirkju.
Skírdagur (1. apríl) er dagur seinustu kvöldmáltíðarinnar og því tilhlýðilegt að söfnuðurinn komi saman um kvöldið kl. 20 til þess að eiga samfélag um borð Guðs. Altarissakramentið verður fram borið með sérbökuðu ósýrðu brauði og bergt af sameiginlegum kaleik.
Prestur sr. Magnús Björn Björnsson. Organisti: Kjartan Sigurjónsson.
Föstudagurinn langi (2. apríl)
Passíuguðsþjónusta kl. 20. Sr. Gunnar Sigurjónsson syngur litaníuna ásamt kór Digraneskirkju. Litanían minnir okkur á píslardauða og krossfestingu Krists. Sr. Yrsa Þórðardóttir les ritningartexta passíunnar. Passíuguðsþjónustunni lýkur með því að kirkjan verður myrkvuð og íhugun þagnarinnar tekur við. Organisti: Kjartan Sigurjónsson.
Aðfangadag páska (3. apríl) kl. 22 er Páskavaka.
Hátíðahöld páskanna eru elsta kristna guðsþjónustugerð sem þekkt er í kirkjunni og á uppruna sinn í Jerúsalem á 1. öld, í kirkju postulanna.
Jóhannes guðspjallamaður nefnir Jesú Krist “ljós heimsins”. Af þeirri hefð spratt sá siður að tendra nýjan eld á vökunni og kveikja á páskakertinu sem tákn um nærveru Jesú Krists, hins upprisna Drottins, sem lýsir myrkri veröld. Orð og athafnir páskavökunar eru full af táknum, sum auðskilin, önnur krefjast nokkurrar þekkingar og íhugunar.
Páskavakan hefst kl. 22 við eldstæði fyrir utan Digraneskirkju.
Páskahátíðin (4. apríl) hefst að morgni páskadags kl. 8
Sungin verður hátíðarmessa sr. Bjarna Þorsteinssonar.
Organisti: Kjartan Sigurjónsson. Einsöngur: Eiríkur Hreinn Helgason, Halla Marinósdóttir og Vilborg Helgadóttir. Prestar Digraneskirkju þjóna allir í messunni. Eftir messu verður morgunmatur í safnaðarsal og er mælst til þess að safnaðarfólk komi með eitthvað meðlæti með sér. Húsmóðir kirkjunnar hitar kaffi, te og heitt súkkulaði og heit rúnnstykki þar að auki. Allir eru velkomnir.
2. mars 2010 - 12:11
Sr. Gunnar Sigurjónsson