Mótorhjólamessan er árlegur viðburður þar sem hinir ýmsu mótorhjólaklúbbar ríða fákum sínum í fylkingum til Digraneskirkju.

Sjaldan koma svo mörg vélhjóla saman á einum stað svo almenningi gefst tækifæri á því að skoða fákana og spjalla við ökumenn þeirra.

Messan er ALVÖRU messa, með prédikun og altarisgöngu, svo það er ekkert slegið af í helgihaldinu, þó svo umbúnaðurinn sé sveipaður léttleika og prestarnir (sem verða að vera mótorhjólafólk) eru búnir sama klæðnaði og viðbúið er af vélhjólafólki (hefðbundnum öryggisbúnaði vélhjólamanna). Leður og Goretex er því “viðeigandi” klæðnaður.

Mótorhjólamessan viðamikið samstarfverkefni sem gengur þvert á kirkjudeildir og mótorhjólaklúbba.
Það er stórkostlegt að sjá svo fjölbreytilegan söfnuð koma saman til helgihalds og ekki spillir nú fyrir að þetta minnir líka á það að við erum líka til í samfélaginu og umferðinni.

Mótorhjólamessan tekur mið af ýmsum hefðum sem skapast hafa í “mótorhjólaheiminum”, bæði hvað varðar tónlist og annað. Hún er því nokkuð “hrá” og gæti farið fyrir brjóstið á þeim sem leitast eftir hefðbundnara helgihaldi.  Því er gáfulegra fyrir þau sem leitast eftir hefðbundu helgihaldi að finna sér messu annars staðar en í mótorhjólmessunni í Digraneskirkju 🙂
Mótorhjólamessan þetta árið (2011) verður með tónlist hljómsveitarinnar U2 sem íslenskir tónlistarmenn munu annast.

Eftir messu verður vöfflukaffi og rennur ágóðinn af því til Hjálparstarfs kirkjunnar.

Allan daginn verður dagskrá á vegum Sober Riders.
Það hefst kl. 15 og er thema þessa árs: Hópakstur bifhjólamanna.  Fyrirlestur verður kl. 17 í kapellu á neðri hæð Digraneskirkju. Þeir verða með grill og gaman á bílaplaninu yfir daginn.
Svo er upplagt að skreppa á Grillhúsið við Sprengisand áður en messan hefst.

 

18. maí 2011 - 16:30

Sr. Gunnar Sigurjónsson