Kvennakór  Kópvogs, í samstarfi við Digraneskirkju, stendur fyrir árlegum tónleikum til styrktar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs.  Yfirskrift tónleikanna er Hönd í hönd og vísar nafnið til þess hve nauðsynlegt það er að rétta hjálparhönd til þeirra sem eiga erfitt og standa af einhverjum ástæðum höllum fæti í samfélaginu.

Kvennakór Kópavogs hefur eins og endranær fengið til liðs við sig fjölda frábærra listamanna.  Fram koma á tónleikunum, auk Kvennakórs Kópavogs,  Gissur Páll Gissurarson, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar Guðmundsson úr Hjaltalín, Sigurður Guðmundsson úr Hjálmum,  Sönghópurinn Spectrum og Ingveldur Ýr, Ólöf Jara Skagfjörð, félagar úr Skólahljómsveit Kópavogs, Vallargerðisbræður, Drengjakór Hafnarfjarðar og Hulda María Halldórsdóttir sem syngur á táknmáli.

Ræðumaður  verður Gunnar Sigurjónsson prestur í Digraneskirkju.

Allir listamenn sem fram koma og þeir sem vinna við skipulagningu og framkvæmd tónleikanna gefa vinnu sína þannig að miðaverð rennur óskipt til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs.

Við hvetjum fólk  til að fjölmenna á tónleikana, njóta góðrar skemmtunar og rétta í leiðinni hjálparhönd.   Tónleikarnir verða í Digraneskirkju  sunnudaginn 6. nóvember n.k. frá klukkan 16:00-18:00.  Hægt er að panta miða með því að senda póst á netfangið hondkk@gmail.com.  Aðgangseyrir er 2500 krónur og miðar verða seldir við innganginn meðan húsrúm leyfir.

Auglýsing

1. nóvember 2011 - 21:01

Guðmundur Karl Einarsson