Mótorhjólamessa, kaffi og vöfflur

Það þykir ekki lengur tíðindum sæta að sjá vélfáka í tugatali og leðurklædda menn og konur ganga til kirkju. Allavega ekki í Digraneskirkju á annan í hvítasunnu. Sú var raunin einnig í ár þegar mótorhjólafólk streymdi til messu. Sjá mátti á annað hundrað mótorhjól skarta sínu fegursta og eigendur sömuleiðis í viðeigandi leðurfatnaði. Prestar sem þjóna eru þar engin undantekning. Ekkert er slegið af helgihaldi en ramminn utan um prédikun og altarisgöngu er léttari en venjulega. Sveitatónlist var tónlistarþema ársins. Eins og oft áður voru seldar vöfflur og kaffi til styrktar innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Innkoman var 72.742 krónur sem Hjálparstarfið þakkar kærlega fyrir!

22. maí 2013 - 13:49

Sr. Gunnar Sigurjónsson