Söfnun fermingarbarna Digraneskirkju fyrir Hjálparstarf kirkjunnar stendur yfir í þessari viku frá sunnudeginum 3.-10. nóvember.

Þau skila svo baukunum á sunnudeginum 10. nóvember.

Fermingarbörnin safna peningum til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í þrem löndum Afríku: Malaví, Úganda og Eþíópíu.

Þau hafa fengið fræðslu um aðstæður í löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Meira en 700 milljónir manna hafa ekki aðgang að heinu vatni. Í fræðslunni heyra börnin um árangur af verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar hvernig hægt er að safna rigningarvatni og grafa brunna sem veita hreint vatn sem gjörbreytir lífinu til hins betra. Með þessu fá fermingarbörnin tækifæri til að láta til sín taka og gefa Íslendingum tækifæri til að leggja sitt af mörkum til aðstoðar þeim sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni. Einn handgrafinn brunnur kostar um 180.000 krónur.

Þetta er í 15. sinn sem söfnunin er haldin. Í fyrra söfnuðu fermingarbörn um land allt 7,5  milljónum krónaEn samtals hafa þau í gegnum árin safnað meira en 80 milljónum króna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar. Sjá skemmtilegt fræðslumyndband um hvernig standa á að söfnun.

6. nóvember 2013 - 16:25

Sr. Gunnar Sigurjónsson