Tíu milljónir Eþíópa á barmi hungursneyðar
Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til að svara neyðarbeiðni Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna, ACT Alliance, um 627 milljónir króna til að aðstoða Eþíópa sem eru á barmi hungursneyðar vegna þurrka og uppskerubrests. Markmið ACT Alliance er að bæta fæðuöruggi, veita húsaskjól, tryggja heilsugæslu og skólagöngu barna og útvega sjálfsþurftarbændum á verstu þurrkasvæðunum útsæði, búfénað og bóluefni fyrir dýrin. Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi vinnur auk þess með sjálfsþurftarbændum á þurrkasvæðum í Sómalífylki að því að bæta fæðuöryggi og auka aðgengi að hreinu vatni.
Neyðarástand í norðan- og austanverðri Eþíópíu nú má rekja til þess að ekki rigndi á venjubundnum regntíma í mars á síðasta ári. Ekki rigndi heldur í ágúst og september þannig að haustuppskera brást, dýr drápust úr þorsta og milljónir íbúa urðu háðar matar- og drykkjaraðstoð. Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við en útilokað er að þau ráði hjálparlaust við það neyðarástand sem blasir við. Nú þegar er svo komið að um tíu milljónir íbúa, þar af nær sex milljónir barna, þurfa á aðstoð að halda og óttast er að ástandið vernsi enn frekar ef ekki rignir á næstunni.
Bregðumst við núna!
Greiðum valgreiðslu í heimabanka (2400 krónur)
Söfnunarsími 907 2003 (2500 krónur)
Söfnunarreikningur 0334-26-886, kt. 450670-0499
22. mars 2016 - 16:25
Sr. Gunnar Sigurjónsson