Næsta sunnudag (16. okt) fáum við heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar, bæði í sunnudagaskólann klukkan 11 og í fermingarfræðsluna klukkan 12:30
Allir eru velkomnir að taka þátt.

Þau sem koma í heimsókn kynna sig hér að neðan.

Góða daginn!

Ég heiti Ahmed Nur Abib og ég er 60 ára gamall. Nafnið mitt er arabískt en á íslensku útleggst það sem „Lof sé ljósinu”. Ég er múslími og kvæntur sjö barna faðir en ég á fimm syni og tvær dætur. Fjögur barna minna hafa lokið námi og vinna nú fyrir sér. Eitt er stjórnandi, annað verkfræðingur, þriðja í viðskiptum og það fjórða starfar í heilbrigðiskerfinu. Hin þrjú eru enn í skóla. Elsta dóttir mín og einn sona minna eiga maka og ég á tvær afadætur og einn afason. Ég er frá Sómalífylki í Eþíópíu og þar eru fjölskyldur stórar og samheldnar. Ég á sjálfur sjö bræður og þrjár systur og við systkinin erum mjög náin.

Ég hef sjálfur verið flóttamaður en það var þegar Eþíópía og Sómalía áttu í stríði 1977 – 1978. Ég lærði landbúnaðarfræði í Sómalíu en síðan þá hef ég fengið þjálfun sem félagsliði og jafnréttisfulltrúi. Þegar ég var í Sómalíu starfaði ég fyrir Barnaheill og áströlsk kaþólsk

hjálparsamtök í flóttamannabúðum og  sem verkefnisstjóri verkefnis sem Alþjóðabankinn studdi í borginni Hargeisa. Þegar ég kom aftur til Eþíópíu vann ég til að byrja með sem svæðisstjóri almannavarna í Sómalífylki.

Ég hef unnið fyrir þróunarsamvinnudeild Lútherska heimssambandsins frá árinu 1993. Fyrst vann ég almenn skrifstofustörf og síðar sem verkefnisstjóri. Nýverið tók ég við hlutverki jafnréttisfulltrúa en ég er jafnframt samskiptafulltrúi og vinn sem slíkur með íbúum og stjórnvöldum að umbótum í samfélaginu svo sem að því að fólk láti af skaðlegum venjum.

Ég hef sem sagt hvoru tveggja starfað við neyðaraðstoð við flóttafólk og í þróunarsamvinnuverkefnum. Framlag mitt finnst mér helst hafa verið á sviði sjálfbærrar þróunar og hjálpar til sjálfshjálpar. Núna vinn ég sem jafnréttis- og samskiptafulltrúi í vatns- og fæðuöflunarverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Jijiga og Tulugulede í Sómalífylki sem fleiri 75,000 íbúar njóta góðs af með beinum og óbeinum hætti.

 


Sæl og blessuð.

Ég heiti Million Shiferaw og ég er 32 ára gömul. Ég er elst þriggja systkina en ég á yngri bróður og systur. Systir mín vinnur fyrir SOS barnaþorpin í Eþíópíu en hún lærði blaðamennsku og félagsfræði í háskóla. Bróðir minn er í framhaldsskóla. Pabbi vinnur fyrir flugfélag Eþíópíu og mamma vinnur hjá Samgöngustofnun. Ég er trúlofuð síðan í sumar og við unnustinn ætlum að gifta okkur í nóvember.

Foreldrar mínir, við systkinin og stórfjölskylda mín öll erum í eþíópsku rétttrúnaðarkirkjunni. Stórfjölskyldan er mjög náin og samheldin en ég á þrjá föður- og móðurbræður, átta föður- og móðursystur og við erum 27 systkinabörnin. Ég var sú fyrsta af frændsystkinunum til þess að fara í háskóla og ljúka þar námi. Ég hef því verið yngri frændsystkinum mínum fyrirmynd og nú hafa fimm frænkur og tveir frændur mínur lokið háskólanámi í viðskiptafræði, verkfræði og í heilbrigðisvísindum.

Ég er með BA gráðu í félags- og mannfræði og MA gráðu í félagsrágjöf frá háskólanum í Addis Ababa. Ég starfaði áður fyrir Alþjóðasamtök fatlaðra, Handicap international, að verkefnum í þágu barna, unglinga, kvenna og fatlaðs fólks. Ég hóf störf hjá þróunarsamvinnudeild Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu 1. júní 2015 og þar vinn ég nú sem verkefnisstjóri í sálrænum stuðningi og sem upplýsingafulltrúi.

Verkefni Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu eru bæði á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar en skjólstæðingarinir eru fleiri en 300.000 samtals. Þróunarsamvinnan felst í hjálp til sjálfshjálpar við fólk sem býr við afar slæmt veðurfar. Fólkið fær aðstoð við að treysta aðgengi að vatni og bæta fæðuval með úrbótum í landbúnaði. Í verkefnunum er líka lögð áhersla á valdeflingu kvenna. Ég starfa á mannúðarsviðinu sem aðstoðar hundruðir þúsunda flóttafólks frá Súdan, Suður-Súdan og Sómalíu í fjórum flóttamannabúðum. Í búðunum fær fólk vatn, næringu og aðgang að hreinlætisaðstöðu, sjálrænan stuðning og aðgang að rafmagni með sólarrafhlöðum.

 

11. október 2016 - 12:19

Sr. Gunnar Sigurjónsson