Við finnum okkur sjaldnast næðisstund til að hlaða batteríin í asa nútímans. Það er hverri manneskju mikilvægt til að halda jafnvægi og ferskleika. Stöðugt áreiti

nútímasamfélags hlúir ekki að gömlum gildum sem rækta andann. Við erum farin að sjá áhrif þess t.d. í auknum kvíða ungmenna sem alltaf eru „á vaktinni“ á samfélagsmiðlum og kunna ekki að kúpla sig út. Þetta er langvarandi álag í ofanálag við skilaboðin sem samfélagsmiðlarnir gefa. Það sem ég vildi sagt hafa er að okkur vantar meiri ró og frið inn í hversdaginn sem er uppspretta orku og blessunar. Nútíminn er að bregðast við þessum halla með Núvitund og Gjörhygli (Mindfullness). Kristin hefð hefur í gegnum aldirnar iðkað Kyrrðarbæn (Centering Prayer) sem er á pari við aðferð Gjörhygli. Fyrir nokkrum áratugum var kyrrðarbæn klaustranna poppuð upp til að mæta asasótt nútímans. Almenningur fór að sækja í kyrrðarbænina því hún skapar vörn og jafnvægi í dagsins önn. Þetta er þögul bæn í 20 mínútur með heilögu orði sem stuðningi. Áhrif af bæninni eru meiri í hversdagslífinu en í bæninni sjálfri. Hún gefur frið, þolinmæði, aukna einbeitingu, sjálfsskilning, orku og það sem kom mér mest á óvart, aukna gleði. Í bæninni verður djúpslökun og því vinnur hún vel á verkjum og hefur nýst mínum vefjargigtarlíkama vel með græðsluferli. Bænin verkar vel með 12 sporunum, hún er í raun 11. spors vinna. Kyrrðarbænin kennir okkur að kúpla frá og skapar þannig rými fyrir nýja hluti hið innra.

Hér eru dæmi frá iðkendum hjá mér. Kona sagði: „Sko ég er ótrúlega óþolinmóð en ég skil ekki hvað er að koma yfir mig, ég er hætt að kippa mér upp yfir því sem angraði mig áður.“ Eldri kona sagði: „Ég er alla daga undirlögð af verkjum en þegar ég sest í þennan stól í bænina þá hverfa allir verkir.“ Önnur sagði: „Ég sef miklu betur þessar nætur eftir kyrrðarbænina.“ Margir tala um frið og jafnvægi.

Við stöðuga iðkun til lengri tíma finn ég eins og meiri skerpu, það bætist eitthvað tært inn í lífið og eftirvænting til hversdagsins vex.

Það verður haldið dags námskeið um Kyrrðarbænina í Digraneskirkju 29. september (kl 10-15:30)og vikuleg iðkun í framhaldinu. Skráning er á barafrid@digraneskirkja.is, sjá nánar á www.digraneskirkja.is.

Kyrrðarbænin er stunduð í hópum víða um land, nánari upplýsingar má sjá á www.kristinihugun.is/bænahópar. Það er gott að fjárfesta í sjálfum sér með iðkun kyrrðarbænar. Vertu velkomin/n með.

23. september 2018 - 10:19

Sr. Gunnar Sigurjónsson