Það hefur ekki farið fram hjá neinum að safnaðarstarfið í Hjallakirkju og Digraneskirkju hefur verið með breyttu sniðu á þessu hausti. Helgast það af auknu samstarfi safnaðanna tveggja og hefur það verið afskaplega gott og gefandi í alla staði það sem af er hausti.

Söfnuðurnir hófu samstarf sitt á þessu ári í æskulýðsstarfi kirknanna og í eldri borgara starfi. Æskulýðsstarf kirknanna fer nú alfarið fram í Hjallakirkju og var sr. Helga Kolbeinsdóttir vígð í ágúst síðastliðnum til að hafa yfirumsjón með þeim málaflokki og er nú í starfi hjá báðum söfnuðum. Hún heldur utan æskulýðsmálin öll ásamt leiðtogum og leiðir starf með 6-9 ára börnum á fimmtudögum kl. 15.00-16.00, æskulýðsfélaginu á fimmtudagskvöldum kl. 20.00-21.30 og sunnudagaskóla alla sunnudaga kl. 11.00. Sú breyting varð á að sunnudagaskóli fyrir báðar kirkjurnar er nú alfarið í Hjallakirkju og hefur hann gengið afskaplega vel á þessu hausti og hefur myndast gott samfélag sem mætir alla morgna í sunnudagaskólann og er það vel.

Eldri borgara starf fyrir báða söfnuði er alla þriðjudaga í Digraneskirkju kl. 11.00-14.30. Þetta starf er starfrækt í samstarfi kirknanna tveggja og er það sr. Karen Lind Ólafsdóttir prestur í Hjallakirkju sér um skipulag og utanhald á því ásamt starfsfólki.

Söfnuðurnir tveir hafa að auki verið í samstarfi með sunnudags helgihaldið og er messað á víxl í kirkjunum báðum kl. 11.00 alla sunnudaga og stundum á báðum stöðum í einu. Við höfum orðið vör við þetta hafi valdið einhverjum ruglingi hjá fólki og vil ég því hvetja fólk til að skoða vel heimasíður kirknanna, Facebooksíður kirknanna og messuauglýsingar í Morgunblaðinu þar sem við auglýsum alltaf fyrir hvern sunnudag á hvorum staðnum messan er hverju sinni. Við stefnum að því að þróa þetta samstarf um helgihaldið enn frekar á komandi ári og færa það í fastar skorður í kirkjunum báðum. Við vitum að festa er mikilvæg í þessu sem öðru og það er vilji okkar til að gera vel hér sem annars staðar og að allir finni eitthvað við sitt hæfi.

Samstarf safnaðanna tveggja gengur afar vel og er nú þegar farið að skila ávöxtum inn í starfið. Söfnuðurnir hafa sínar tvær starfsstöðvar, Hjallakirkju og Digraneskirkju. Í báðum kirkjum rekið gott og öflugt kórastarf undir stjórn organistanna Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur og Láru Bryndísar Eggertsdóttur og öflugur hópur kirkjuvarða og húsmæðra sjá um daglega umhirðu, rekstur veislusala og utanhald á þeirri starfsemi sem nú rekin er í húsunum báðum.

Það er ekkert launungarmál að nú liggur fyrir tillaga um sameiningu á þessum tveimur prestaköllum og var hún lögð fram á núverandi kirkjuþingi. Stefnt er að því að klára þetta mál á vordögum 2020 og sóknirnar tvær sameinist í eitt prestakall. Við vekjum athygli á því að munur er á sameiningu sókna og sameiningu prestakalla. Við sameiningu Hjallakirkju og Digraneskirkju í eitt prestakall, verða enn starfræktar tvær sóknarnefndir í hvorri kirkjunni og fjárhagur safnaðanna sameinast ekki við þessa breytingu. Hér er því um að ræða að það verði til að byrja með enn tvær sóknir í einu prestakalli. Sameining sóknanna í eina sókn bíður síðari tíma. Það prestateymi sem fyrir er mun starfa saman áfram og sjáum við gríðarlega hagsmuni fólgna í því að stækka á þennan hátt teymið okkar og teljum við að prestsþjónustan styrkist til muna og við fáum tækifæri til að þróa nýja möguleika í safnaðarstarfi ásamt því að styrkja umtalsvert það sem fyrir er bæði í helgihaldi og safnaðarstarfinu öllu.

Það er okkar einlæga skoðun að með þessu samstarfi og bættara vinnu umhverfi séum við að byggja upp kirkju framtíðarinnar með öflugt og gott starfsfólk innanborðs og það er von okkar að við sem flest fáum sé tækifærin sem felast í þessu ögrandi verkefni sem okkur er á hendur falið og við sameinumst um það megin markmið að byggja upp sterkar kirkjur í Hjalla- og Digraneskirkju, Guði til dýrðar og söfnuðnum öllum til heilla og blessunar.

Sr. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur Hjallakirkju og sr. Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur Digraneskirkju.

8. nóvember 2019 - 14:45

Helga Kolbeinsdóttir