Sunnudaginn 16. febrúar er messa í Digraneskirkju kl. 11.00. Félagar úr Kammerkór Digraneskirkju leiða söng undir stjórn Sólveig Sigríðar Einarsdóttur organista. Guðspjallstexti dagsins er úr Lúkasarguðspjalli, 8. kafla þar sem Jesú líkir Guðs orði við sáðkorn sem sett er í misgóðan jarðveg. Prestur er sr. Helga Kolbeinsdóttir. Léttur hádegisverður á vægu verði í safnaðarheimili að messu lokinni.
Klukkan 17. 00 er fjölskyldumessa og sunnudagaskóli í Hjallakirkju. Guðspjallið um Sáðmanninn flutt með stillimyndum sem Kirkjuprakkararnir okkar eiga heiðurinn af, en þau ætla að líka að syngja fyrir okkur BIBLÍA í tilefni Biblíudagsins, ljúfir sálmar, örhugleiðing og bænastund. Notaleg stund fyrir alla fjölskylduna í helgarlok og kvöldmatur í safnaðarheimili að lokinni samveru í kirkju á vægu verði. Organisti er Sólveig Sigríður Einarsdóttir, Sr. Helga og Halla æskulýðsfulltrúi sjá um samveruna.
Verið velkomin.
Guðspjall sunnudagsins 16. febrúar: Lúkasarguðspjall 8.4-15
„Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“
En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.
En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.“
13. febrúar 2020 - 11:40
Helga Kolbeinsdóttir