Við vitum að veruleiki okkar er fullur af táknum. Tákn er skiljanlegt merki, sem bendir á eitthvað annað en sjálft sig. Orð eru t.d. tákn hluta og hugmynda. Krossinn er tákn kirkjunnar.  Þú kæmist nú lítið áfram í umferðinni ef engin væru umferðartáknin, götuljós, biðskyldumerki.  Án þeirra yrðu tíðir árekstrar og slys á fólki.

Tákn koma við sögu þegar endurkomu frelsarans er lýst, öll sköpunin titrar.  Heimurinn var heldur ekki laus við tákn þegar Jesúbarnið heilsaði honum.  Stjarnan yfir Betlehem, gjafir vitringa, allt voru það merki, sem bentu á annað en sig sjálf.

Það er forvitnilegt að kynna sér táknmál trúar, rétt eins og þau tákn er tilvistinni tilheyra. En skyldleiki trúar og tilvistar er mikill og gott að það allt fylgist að. 

Við höfum heyrt, fyrir það fyrsta, um kirkjuskip sem bendir á skipið er siglir í ölduróti dagana. Við erum saman innanborðs og erum hvött til þess að leggjast öll sem eitt á árar. Kirkjan elur með þeim hætti á samvitund og samfélagi.

Við það styður síðan aðventu og jólatíminn, þessi hátíð ljóss og friðar. Fjölskyldur sameinast kringum barnið í jötunni. Fjölskyldur sameinast oftar en ekki í kringum börn, þar er djúpa fegurð að finna og ómengaða gleði. 

Guð var snjall að koma þannig í heiminn, en ekki sem riddari á hvítum hesti með sverð og skjöld.  Barnið dregur að, riddarinn fælir frá, það er augljós vilji Guðs að við sameinumst, myndum tengsl og eflum og bætum samskipti. 

Þess vegna má með sanni segja að jólahátíð sé tengslahátíð, þar sem fólk lætur ósjaldan meira af sér vita en annars, hvort sem það er í jólakortum, símtölum, pakkasendingum eða heimsóknum. Er það vel. En um þessi jól 2020 þurfum við víst að fara að öllu með gát hvað samkomur snertir og það einmitt í þeim tilgangi að sýna okkar nánustu kærleika og umhyggju. Stundum getur veruleikinn verið svo öfugsnúinn og komið okkur í opna skjöldu.

Trúarlegur veruleiki er táknrænn veruleiki. Þar er verið að benda þér á vissa leið að takmarki, þar er verið að leiða þig að vissri stoð í lífinu, á braut sem minnir þig sífellt á það að lífið hefur upp á eitt og annað áhugavert og uppbyggilegt að bjóða í annars öllu ölduróti og brekkum lífsins.

Við þurfum á táknum að halda til þess að útskýra þann mikla leyndardóm, sem trúin felur í sér og fjallar um. Mörg tákn tilheyra t.d. skírninni, þegar barn er borið að helgri skírnarlaug og falið góðum Guði. Skírnarfonturinn merkir lind, vatnið er tákn lífs, án vatns visnar allt og deyr. 

Hvítur litur skírnarkjóls merkir hreinleika, sakleysi og sídd hans það að við eigum að vaxa í þekkingu á Guði. Þa og margt fleira bendir á raunverulega þætti lífsins.

Og hvað með aðventu og jól? Mörg tákn fylgja þeim hátíðartíma. Aðventan, eða adventus Domini, merkir koma Drottins, með aðventu hefst nýtt kirkjuár og með kirkjuárinu er hin kristna hjálpræðissaga letruð á almanakið og hrynjandi árstíða verður vitnisburður um líf og verk Jesú Krists. 

Jólin sjálf eru gömul sólstöðuhátíð, þar sem fólk fagnaði því að daginn var farið að lengja, en tilkoma Jesúbarnsins umbylti merkingu jólanna, og kristnir út um allan heim fagna hinni eilífu birtu í barninu, sem fæddist í gripahúsi í bænum Betlehem. 

Þess vegna er ljósið svo fyrirferðamikið tákn jóla, allir skreyta með ljósum og kertaljós prýða kirkjur og bæi. Minnumst orða Jesú sjálfs:  Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. Kristur er hið eina sanna lifandi ljós.

Og margt er það annað sem við setjum upp á helgri aðventu og jólum, sem styðja við hinn táknræna veruleika og benda á eitt og annað er eykur þekkingu okkar á trú og trúarlífi.

Aðventukransinn er nú eitt. Hann er hringur og hringur er tákn eilífðar. Kertin bætast við eftir því sem myrkur skammdegis eykst og mynda loks „sólstigans braut” eins og skáldið sagði.

Og kerti kransins eru fjögur, fyrst spádómskertið sem er áminning þess að koma Jesú hafði verið undirbúin löngu áður þar sem spámenn Drottins sögðu frá honum. Þannig erum við minnt á aðventu sem undirbúningstíma. 

Næst er það Betlehemskertið annars sunnudags í aðventu sem bendir á fæðingarstað Jesú, þar getum við tekið á móti því, „vil ég mitt hjarta vaggan sé,” svo vitna sé áfram í skáldin.

Þriðja kertið er fjárhirðakerti, en fjárhirðar fengu fyrstir gleðitíðindin frá Betlehem og miðluðu þeim áfram sem er jafnframt okkar hlutverk. Síðast en ekki síst er það englakertið þegar englarnir sungu yfir Betlehemsvöllum snertust himinn og jörð og þegar við syngjum jólasálma erum við að gera það sama og englarnir forðum og himinn og jörð hjá okkur mannfólki mætast við þann helga söng. Heims um ból.

Við skreytum hús grænum greinum og jólatréð í stofu stendur. Það minnir á lífsins tré í Paradís ellegar Jesú sem hið græna tré, en í jólaguðspjallinu þ.e.a.s. Lúkasarguðspjalli, segir Jesús í píslarsögunni: “Þá munu menn segja við fjöllin:  Hrynjið yfir okkur! Og við hálsana:  Hyljið okkur! Því að sé þetta gert við hið græna tré, hvað mun þá verða um hið visna.” 

Og við setjum jólarósir út í glugga eða jafnvel ásamt ljósi á leiði látinna ástvina, rósin táknar nefnilega Krist, rósin er tákn kærleika og fórnar og við syngjum um hina fegurstu rós, sem er fundin eða það aldin út er sprungið, þú ljúfa liljurósin, sem lífgar helið kalt. Og einhverjir stilla upp fjárhúsinu og jötunni, jólafjölskyldunni, fjárhirðum og vitringum frá austurlöndum.

Hið nöturlega fjárhús, sem líkist helst húsarústum, táknar hina föllnu tjaldbúð Davíðs, sem Kristur endurreisir, en í Postulasögunni, sem segir frá upphafsárum kirkju og kristni í heiminum, heyrum við þessi orð í samræmi við það sem spámennirnir fluttu:

“Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gera hana aftur upp svo að mennirnir, sem eftir eru leiti Drottins.” 

Á gömlum myndum af fæðingu frelsarans má sjá að barnið hvílir á hveitistráum og hveitiknippi liggur á gólfinu og er þar um að ræða tilvísun í altarissakramentið, brauðið, og stundum er jatan nánast sýnd eins og altari. 

Hinn frómi kennimaður Marteinn Lúther talaði um Gamla testamentið sem jötuna, þar sem Jesúbarnið liggur og þar leggur Lúther áherslu á mikilvægi Gt. sem undanfara Nýja testamentisins, eða sögu Jesú. Í Gt. höfum við fyrirheitin sem komu fram hin fyrstu jól.

Og að lokum skal minnt á fyrstu gestina í fjárhúsinu forðum.  Áður hef ég komið inn á hlutverk fjárhirðana sem fyrstir fengu  fréttirnar og fóru og veittu barninu lotningu sína. Fjárhirðir gætir kinda, hann vitnar um ábyrgð og umhyggju

Vitringarnir komu langt að, voru þrír að tölu. Venjulega kallast þeir:  Kaspar, sem sýndur er sem unglingur með reykelsi, Melkíor er hvítskeggjaður öldungur og ber gullið og Baltasar er þeldökkur með myrru. 

Gullið er konungsgersemi, reykelsið er tákn bænarinnar og myrra er krydd sem notað var í smyrslin sem lík voru smurð með við greftrun og táknar því dauða Krists, heiminum til hjálpræðis.

Þessir fróðleiksmolar um táknmál trúarinnar og kirkjunnar, um táknin á aðventu og jólum, gefa ykkur vonandi svolitla innsýn inn í það, sem býr að baki, tákn kirkju og kristni fela í sér lífvænlega merkingu, kirkjan fjallar um lífið, hið sanna líf, sem kom fram á friðsaman og hógværan hátt forðum í Betlehem. 

Svipuð er myndin af því þegar Jesús reið á asna inn í Jerúsalem sbr. guðspjall dagsins, hógvær er sú mynd og friðsöm, og fólkið tók á móti honum fagnandi, bæði Jesú og asninn minna þar á þjónustuna við Guð og menn, asninn var vinnudýr var notaður til dráttar, reiðar, áburðar og í hernaði og Jesús var kominn til að þjóna, ekki drottna, og kallar með því eftir kærleiksþjónustu okkar í hans anda, þjónusta sem verður æ dýrmætari og mikilvægari í hörðum heimi.

Það er gott að við minnumst þess af hverju við erum að setja upp ljósin, af hverju við erum að ná í jólatré, af hverju við skrifum á öll jólakortin eða sendum þau rafrænt, gefum gjafir og stillum upp helgimyndum. 

Allt verður þetta að kvöð ef við gleymum merkingunni og tilgangnum, ef við gleymum því hvað býr á bak við tákn og siði.

Það að gera sér grein fyrir sögu táknanna og siðanna eykur gleðina, eykur jólagleðina sem er einlæg, falleg og gefandi gleði rétt eins og sú er brýst fram þegar barn heilsar heimi. 

Guð gefi okkur öllum innihaldsríka aðventu og gleðiríka jólahátíð, sem framundan er. Sjá, konungur þinn kemur til þín. Gleðileg jól!

Sr. Bolli Pétur Bollason

 

 

 

 

9. desember 2020 - 19:58

Sunna Dóra Möller