Kæru sóknarbörn Digranes- og Hjallasóknar

Vegna hertra sóttvarnarreglna í baráttunni við COVID-19 teljum við þann kost ábyrgastan að setja allt safnaðarstarf sem og helgihald í tímabundið hlé, í það minnsta til 15. apríl eða þar til létt hefur verið á takmörkunum. Þetta gildir um barna- og æskulýðsstarf, fullorðinsstarf sem og eldriborgarastarf.

Þetta er sérlega þungbært fyrir fermingarbörnin okkar sem höfðu beðið í eftirvæntingu eftir stóra deginum sínum. Fermingin er heilög stund þar sem við fögnum þeirri stóru ákvörðun sem börnin taka í einlægni um að tilheyra einhverju sem er stærra og meira en þau sjálf og hafa trú, von og kærleika að leiðarljósi. Tími ferminga í kirkjunni er dásamlegur tími og ekkert skemmtilegra en að ganga inn í fermingarathöfn. Þá ríkir svo mikill hátíðleiki og gleði. Við teljum mikilvægt að fermingin sé hátíðarstund sem börnin fagna með sín nánustu til staðar í kirkjunni og núverandi aðstæður bjóða ekki upp á það. 

Við munum senda helgistundir út gegnum heimasíðu okkar og facebook síðu líkt og áður hefur verið. 

Guð gefi okkur öllum gleðilega páska og munum að þó að við getum ekki komið saman í kirkjunni í helgihaldi páskanna, þá mætir vonarboðskapur þeirra okkur hvar sem við erum, boðskapur um trú, von og kærleika sem yfirvinnur allt. 

Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Rómverjabréfið 12:12

Prestar og starfsfólk Digranes- og Hjallaprestakalls

25. mars 2021 - 11:55

Helga Kolbeinsdóttir