Páskarnir eru hátíð upprisunar og atburðir páskadagsmorguns eru staðfesting vonarinnar, um að sólin rís þrátt fyrir allt og hrekur á burt myrkur, sorg og kvíða næturinnar. Því jafnvel þó við krossfestum Jesú og veltum steini fyrir gröf hans þá rís hann upp og breiðir náð sína yfir syndir okkar og hylur þær með kærleika sem yfirvinnur allt.

En upprisan á sér ekki stað í tómarúmi. Undanfari hennar er djúpur sársauki, sorg og örvænting.

Jesús upplifði smán og háð, pyntingar og að lokum dauða á krossi af völdum mannanna sem hann kom hingað til að frelsa. Hans eigin sem tóku ekki við honum.  

Úr þessum djúpa sársauka á upprisan sér stað.

Við lesum í guðspjalli dagsins úr Jóhannesi að María Magdalena fór árla morguns að gröfinni og var sú fyrsta til að sjá að Jesús var ekki að finna þar lengur. Í textanum segir að María hafi farið svo snemma af stað að enn var myrkur (Jóh. 20.1). Og þegar hún kom að gröfinni var búið að velta steininum frá.

Af atburðinum lesum við í Matteusarguðspjalli: Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. (Matt. 28.2-3)

Við getum reynt að ímynda okkur hvernig það var fyrir Maríu að verða vitni að slíku undri. Er hún í myrkrinu á páskadagsmorgun, fer hrygg og döpur að vitja grafar Jesú, upplifir hún sjálfa upprisuna í stað sorgar og vonleysis. Þvílíkt undur!

Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig sú upplifun var en mér varð þó hugsað til undursins sem blasir við okkur í Geldingadölum þessa dagana. Í undanfara eldgossins höfum við upplifað marga landskjálfta og við höfum séð eldinn og hvítan snjóin blandast í mögnuðu sjónarspili náttúrunnar.

Eflaust hafa margir lagt leið sína að gosinu undanfarnar tvær vikur og fjöldi fólks hefur vafalaust stillt klukkuna fyrir allar aldir í morgun til að berja þetta undur augum í ljósaskiptunum. Á meðan enn er myrkur. Ég held flestir séu sammála um að það er heldur tilkomumeira í myrkrinu. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við að sjá appelsínugulan bjarman lita næturhimininn og heyra í drunurnar í hrauninu og horfa dáleiddur á gylltan hraunfossinn þar sem hann rennur einsog blóð um æðar hraunsins.

Sköpunarkrafturinn, frumkraftur úr iðrum jarðar, minnir okkur á smæð okkar, en um leið á að við tilheyrum einhverju sem stærra og meira en við sjálf. Við höfum fengið að gægjast inn í djúp jarðar og sjá þann kraft sem hrærist undir okkur.

Slíkur var krafturinn sem fylgdi upprisu Jesú, máttur kærleikans sem yfirvinnur allt. Sem brýst fram í myrkrinu og vonleysinu, og vekur von og gleði í hjörtum mannanna. Sem litar næturhimininn með rauðgulum loga kærleikans.

Páskarnir eru sólarupprásin sem þurrkar út myrkrið og markar nýtt upphaf, nýjan dag og nýtt líf.

Með upprisu Jesú á páskadagsmorgun var sigur unninn á dauðanum, hið góða sigraði hið illa, í eitt skipti fyrir öll. Ég vona að sú gleði sem upprisan færir okkur nái til þín í dag, hvar sem þú ert, og fylli hjarta þitt von og kærleik.

Gleðilega páska!

Höfundur: sr Helga Kolbeinsdóttir

4. apríl 2021 - 13:06

Helga Kolbeinsdóttir