Hver erum við?

Við erum stór söfnuður fólks sem býr í miðhluta Kópavogs og tilheyrir hinni íslensku þjóðkirkju.
Við erum lútersk-evangelískt trúfélag sem byggir á fornri og lifandi hefð í nútíma samfélagi.
Við trúum á Guð eins og Jesús Kristur opinberar okkur hann samkvæmt játningum hinnar lútersku kirkjudeildar.

Sóknarmörkin

Að skipulagi þjóðkirkjunnar mynda söfnuðirnir sóknir. Sóknin okkar nær frá Kópavogsgjánni í vestri, er sunnan Nýbýlavegar og nær að Skálaheiði í austri. Smárahvammslandið sunnan Digraneskirkju er allt í okkar sókn. Sóknarbörn eru u.þ.b. 9000 talsins.

Smelltu hér til að skoða sóknarmörkin á korti.

Kirkjan okkar

heitir Digraneskirkja og er í hugum okkar eins og andlegt heimili safnaðarins þar sem við komum saman á gleði- og sorgarstundum. Þar lofum við Guð, tilbiðjum hann, uppfræðumst og eigum heilagt samfélag í trú við hann.
Þar skírum við börnin okkar, þar fermast þau, þar fáum við hjónablessun Kirkjunnar, þar eigum við stefnumót við Jesú Krist og þangað koma okkar nánustu að fylgja okkur seinasta spölinn.
Kirkjan er opin virka daga milli 9 og 17, nema mánudaga, því þá á starfsfólk kirkjunnar sinn frídag.
Á sumrin er opið milli 11-13.

Helgihaldið

Sungin er messa á hverjum sunnudegi kl. 11, börnin fara í sunnudagaskólann sem er í kapellu kirkjunnar á neðri hæð en við erum annaðhvort með þeim niðri eða í messunni í kirkjunni. Í hádeginu borðum við saman léttan hádegisverð og ræðum málin yfir kaffibolla að því loknu.
Í hádeginu á fimmtudögum er bænastund í kirkjunni þar sem við biðjum fyrir söfnuðinum, sjúkum og lasburða og hverju því bænarefni sem óskað er eftir. Bænarefni má skrifa og leggja í sérstakan kassa í anddyri kirkjunnar eða hafa samband við prestinn, kirkjuvörð eða organista. Einnig má senda inn bænarefni beint af vefnum.

Tónlistarstarf

Í kirkjunn er starfandi kirkjukór sem var stofnaður nokkru áður en kirkjan var vígð. Kórinn leiðir safnaðarsöng í helgihaldi kirkjunnar. Í kórnum eru á bilinu 25-30 söngvarar.

Skipulag safnaðarins

Árlega velur söfnuðurinn á aðalfundi sínum sóknarnefnd sem sér um að halda utan um starfsemi og skipulag kirkjunnar. Hún gerir áætlanir, fylgist með viðhaldi og endurnýjun alls þess sem að kirkjunni okkar viðkemur og passar upp á það að allt sé til reiðu sem söfnuðurinn þarfnast til reksturs kirkjunnar. Sóknarnefndina skipa 14 manns úr söfnuðinum (aðalmenn og varamenn) og hittast þau mánaðarlega á fundi. Sóknarnefndin velur síðan fólk til ýmissa embætta er varðar starf og starfshætti safnaðarins.

Nokkrar sóknir mynda með sér einingu sem kallast prófastsdæmi. Við erum í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra ásamt söfnuðum Kópavogskirkju, Hjallakirkju í Kópavogi, Breiðholtskirkju, Seljakirkju, Fella- og Hólakirkju, Grafarvogskirkju og Árbæjarkirkju. Árlegur safnaðarráðsfundur eða héraðsfundur presta og kjörinna fulltrúa safnaðanna er samráðsfundur þessara safnaða um innra og ytra skipulag kirkjunnar undir stjórn prófasts.

Skírnarfontur Digraneskirkju

Prédikunarstóllinn

Ljósaaltari Digraneskirkju